Hoppa yfir valmynd

Mælaborð landbúnaðarins

Mælaborð landbúnaðarins er rafrænn vettvangur þar sem upplýsingar um landbúnað og matvælaframleiðslu á Íslandi eru gerðar aðgengilegar á einum stað og birtar á gagnvirkan og skilmerkilegan hátt.

 

Í fyrsta áfanga er lögð áhersla á yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir landbúnaðarafurða hér á landi, auk stuðnings við bændur samkvæmt búvörusamningum. Mælaborðið er þróunarverkefni og má því búast við stöðugum endurbótum til að það nýtist sem verkfæri til að fylgjast með þróun þeirra markmiða sem sett eru í búvörusamningum og landbúnaðarstefnu auk þess að stuðla að fæðuöryggi.




Aðgerðaáætlun vegna COVID-19 heimsfaraldurs

Mælaborð landbúnaðarins er liður í aðgerðaráætlun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að mæta áhrifum COVID-19 heimsfaraldurs á íslenskan landbúnað. Aðgerðunum er ætlað að styrkja stoðir íslensks landbúnaðar í ljósi þeirra beinu og óbeinu áhrifa sem COVID-19 hefur haft á greinina. Tilgangur aðgerðanna er að skapa öfluga viðspyrnu fyrir íslenskan landbúnað og auðvelda honum að nýta tækifæri framtíðarinnar.

Fyrir hverja er Mælaborð landbúnaðarins?

Mælaborðið er stafrænnvettvangur þar sem upplýsingar um landbúnað og matvælaframleiðslu á Íslandi verði aðgengilegar á einum stað og birtar á gagnvirkan og skilmerkilegan hátt. Mælaborðið mun nýtast við áætlanagerð, stefnumótun og greiningar stjórnvalda og annarra hagaðila.

Jafnframt mun mælaborðið hafa upplýsingagildi fyrir almenning, fjölmiðla, Alþingi o.fl. Það er sérstaklega gagnlegt fyrir stjórnvöld, bændur og samtök bænda, samtök atvinnurekenda, verkalýðsfélög, háskólasamfélagið og greiningaraðila.

Mælaborðið byggir annars vegar á gögnum úr Afurð, greiðslukerfi landbúnaðarins hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Afurð heldur utan um stuðningsgreiðslur ríkisins við bændur, framleiðslu á kjötafurðum og sækir upplýsingar um  fjölda búa og fjölda búfjár í Bústofn, búfjáreftirlitskerfi ráðuneytisins. Þá eru sótt gögn  frá Hagstofu Íslands um inn- og útflutning á kjötafurðum.

Sjá útskýringar á ýmsum hugtökum sem koma fram í Mælaborði landbúnaðarins.

Mælaborðið er þróunarverkefni og allar eru ábendingar vel þegnar.
Hægt er að senda þær á netfangið: [email protected]. Vinsamlegast merkið fyrirspurnir: Mælaborð landbúnaðarins. 

Hvernig virkar mælaborðið?

Mælaborðið er sett upp í Power BI sem er viðskiptagreindarhugbúnaður frá Microsoft og gefur möguleika á að skoða gögn með gagnvirkum hætti. Ákjósanlegast er að nota mælaborðið í tölvu eða spjaldtölvu. Gögnunum er skipt í þrjá flokka: 

  1. Stuðningur ríkisins við bændur samkvæmt búvörusamningi.
  2. Framleiðsla, sala, inn- og útflutningur á landbúnaðarafurðum. 
  3. Fjöldi búa og búfjár eftir landshlutum og kyni umráðamanns ofl.

Þegar smellt er á flipann Búvörusamningar birtast súlurit og töflur um greiðslur til bænda samkvæmt búvörusamningi. Hægt er að skoða hvern búvörusamning fyrir sig: samning um sauðfjárrækt, nautgriparækt, garðyrkju og rammann  með því að smella á táknmyndir  fyrir hvern samning. Svo er hægt að skoða gögnin eftir mismunandi víddum s.s. eftir stuðningstegund,  landshlutum, kyni og eftir búi. Hægt er að smella á einstaka súlu í súluritinu en þá afmarkast greiðslur við það ár. Hægt er að smella á einstakan lið í greiðslutegund og þá afmarkast greiðslur við þá tegund. Loks er hægt að smella á einstaka bú og þá afmarkast greiðslur við það bú.

Þegar smellt er á flipann Bændur og búalið sést hvernig fjöldi búa hefur þróast á landinu frá 1981. Hægt er að velja einstaka landshluta og einstaka búfjártegundir. Hægt er að sjá fjölda búa og búfjár eftir árum og landshlutum og skipting umráðamanns eftir kyni.

Þegar smellt er á flipann Búvörumarkaður birtast töflur og súlurit um framleiðslu og sölu á kjötafurðum og grænmeti miðað við valin mánuð. Hægt er að skoða birgðir, samanburð á afurðaflokkum, innflutning og sölu, og þróun í framleiðslu, innflutningi og sölu eftir afurðaflokkum yfir nokkurra ára tímabil.

 

 


Mælaborðinu sýnir stuðningsgreiðslur sem kveðið er á um í búvörusamningum ríkis og bænda.

Mælaborðið hefur að geyma gögn um stuðningsgreiðslur frá því nýir búvörusamningar tóku gildi 1. janúar 2017 til og með árinu 2020, eða alls 4 ár. 

Gögnin streyma beint úr gagnalindinni Afurð, greiðslukerfi landbúnaðarins, þar sem haldið er utan um alla umsýslu samninganna með stafrænum hætti. Framleiðendur í landbúnaði hafa þar aðgang að svokallaðri jarðabók búsins (sbr. mínar síður) þar sem eru að finna heildstæðar upplýsingar um allar stuðningsgreiðslur, greiðslumark, umsóknir, rafræn skjöl og þar er að finna stafræna handbók um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, svo eitthvað sé nefnt.

Á mælaborðinu er hægt að velja á milli búvörusamninga sem eru samningur um sauðfjárrækt, samningur um nautgriparækt, samningur um garðyrkju og rammasamningur. Undir hverjum samningi koma fram upplýsingar um allar stuðningsgreiðslur hvers samnings og hvaða bú fengu stuðning. 

Á mælaborði hvers samnings er hægt að skoða gögn út frá mörgum sjónarhornum, svo sem tegundum stuðnings.

Vakin er athygli á því að Mælaborð landbúnaðarins er þróunarverkefni. Því ber að skoða tölur um framleiðslu, sölu og birgðir með ákveðnum fyrirvara. Sala hvers mánaðar er skráð sala frá afurðastöðum til kjötvinnsla og verslana. (Sjá fyrirvara Mælaborðs landbúnaðarins hér neðst á síðunni.)

Jafnframt er vakin athygli á því að við upplýsingar um framleiðslu og sölu kindakjöts eru ýmist birtar tölur eftir skrokkhlutum eða kjötflokkum. Ástæða þess er að nýtt birgðaskráningarkerfi var tekið í notkun árið 2020 í Afurð. Frá og með framleiðsluárinu 2020-21 er framleiðsla, sala og birgðir skráðar eftir skrokkhlutum dilka og fullorðins fjár í stað kjötmatsflokka. 

Þessi hluti mælaborðsins fjallar um búvörumarkað og sýnir þróun framleiðslu og sölu helstu búvara yfir ákveðinn tíma. Einnig má sjá þróun birgðastöðu, inn- og útflutnings.

  • Upplýsingar um magn innlendrar framleiðslu og sölu byggir á gögnum úr gagnagrunni Afurðar.
  • Upplýsingar um innflutning búvara eru sóttar í gagnagrunn Hagstofu Íslands og uppfærast mánaðarlega, sem og aðrar upplýsingar í þessum hluta mælaborðsins.
  • Til að skoða heildartölur fyrir árið skal velja desembermánuð þess árs.

Á síðunum Framleiðsla og sala, Birgðir og Samanburður á flokkum má sjá þróun innlendrar búvöruframleiðslu, þ.m.t. útflutnings. 

Á síðunum Innflutningur og sala og Innflutningur og sala hlutfall má átta sig betur á umfangi heildarmarkaðar hverrar afurðar sem byggir á sölu innlendra afurða ásamt innfluttum afurðum.

Í þessari fyrstu útgáfu mælaborðsins eru aðeins upplýsingar um kjöt- og grænmetismarkaðinn. Unnið er að uppsetningu sambærilegra upplýsinga fyrir fleiri afurðir, þ.á.m. mjólkurvörur. Þá er einnig unnið að uppsetningu ítarlegri upplýsinga um utanríkisverslun með ýmsar landbúnaðarvörur.

Bent er á hægt er að hægt er að velja hvort innfluttar kjötafurðir séu leiðréttar fyrir beinahlutfalli. Innlend framleiðsla er skráð í heilum skrokkum en innfluttar kjötafurðir eru að miklu leyti úrbeinaðar og auðveldar því valmöguleikinn samanburð milli innlendrar sölu og innflutnings. Þessi valmöguleiki er t.d. hentugur þegar litið er á áætlaða hlutdeild innlendrar framleiðslu kjötafurða á innlendum markaði.


Vakin er athygli á því að Mælaborð landbúnaðarins er þróunarverkefni. (Sjá fyrirvara Mælaborðs landbúnaðarins hér neðst á síðunni)

Þessi hluti mælaborðsins sýnir fjölda búa og búfjáreigenda. Aðalgagnalindin er Bústofn, búfjáreftirlitskerfið, sem byggir á upplýsingum úr haustskýrslum sem umráðamenn búfjár skulu skila árlega í samræmi við lög nr. 38/2013 um búfjárhald. Í haustskýrslunni skal koma fram fjöldi ásetts búfjár af hverri tegund og allt búfé í hagagöngu og á hvaða jörð eða landspildu það er.

Á mælaborðinu er hægt að skoða fjölda búa eftir árum, fjöldi búa sem þáðu stuðningsgreiðslur skv. búvörusamningum, fjölda búfjáreigenda sem eru umráðmenn búfjár eftir landshlutum, fjölda búfjáreigenda eftir kyni, fjölda búfjár eftir árum og loks fjölda búfjár eftir landshlutum. Það er rétt að hafa í huga að um er að ræða fjölda búfjáreigenda, þar með taldir eigendur hrossa á þéttbýlisstöðum. 

Frá Árneshreppi á Ströndum

Sjá einnig:

Fyrirvari - Mælaborð landbúnaðarins

Matvælaráðuneytið leitast við að hafa allar upplýsingar á Mælaborði landbúnaðarins áreiðanlegar og réttar. Ráðuneytið ábyrgist ekki áreiðanleika birtra gagna né ábyrgð á tjóni sem rekja má til notkunar upplýsinganna. Öllum er heimil afnot upplýsinga úr Mælaborði landbúnaðarins. Í ljósi þess að uppruni gagna er mismunandi gilda ólíkir skilmálar um dreifingu og nýtingu gagna úr Mælaborði landbúnaðarins. Öll gögn í Mælaborði landbúnaðarins eru í eigu stjórnvalda og ekki framseljanleg. Vinsamlegast getið heimilda.

Síðast uppfært: 4.12.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum